Áhugaverð grein?!

Hér fyrir neðan hef ég sett inn grein eftir Magga Bö sem verður lesin á morgun í útvarpsþættinum „mín skoðun“ .

Ég hvet ykkur endilega til að lesa þessa grein og ekki hika við að segja ykkar skoðanir varðandi málefnið 😉

Eló
_________________________________________________________________________________________

Fordómar og dómgæsla

Fordómar í Íslenskri knattspyrnu hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu en ekki er langt síðan stuðningsmenn Fjölnis gerðu aðsúg að dökkum leikmanni ÍBV og kölluðu óyrðum á leikmanninn. Ég hélt að fórdómar á Íslandi væri lítið vandamál en hef nýlega gert mér grein fyrir því hversu alvarlegt vandamál þetta er. Sjálfur er ég leikmaður liðs í neðri deild á Íslandi og hef á undanförnum vikum orðið vitni af því sem ég vill kalla fordóma. Þá er ég ekki að tala um hjá stuðningsmönnum liðanna heldur leikmönnum og jafnvel dómurum líka. Þannig er mál með vexti að í því liði sem ég spila með er í eru 2 erlendir leikmenn. Annar er Englendingur og hinn Spánverji og er sá spænski aðeins dekkri á hörund og hefur hann orðið fyrir aðkasti á meðan hinn ekki.

Fyrr í sumar fékk umræddur Spánverji rautt spjald í leik snemma sumars fyrir litlar sakir. Gerðum við ekkert mál úr því enda þóttum við ólíklegt að slíka furðulega dómgæslu gætum við ekki fengið aftur. Hann tók út sitt bann og lítið mál. Fyrir stuttu síðan var þessi umræddi leikmaður á fullri ferð og einn leikmaður andstæðinganna svoleiðis klippir leikmanninn niður að sumir vildu telja að um líkamsárás hafi átt sér stað. Dómarinn dæmdi að sjálfsögðu á þetta og gaf leikmanninum gult spjald og við það svarar sá sem hafði brotið af sér ,, þetta er bara fucking útlendingur”. Dómarinn gerði ekkert frekar í málinu og lét leikinn halda áfram en eftir þetta missti dómarinn algjörlega tökin á leiknum og var farinn að flauta jafnvel þó ekkert hafi átt sér stað og bitnaði það á báðum liðum.

Í leiknum á eftir var mér svo nóg boðið. Snemma leiks skora andstæðingar okkar löglegt mark og í kjölfarið sleppur sóknarmaður okkar í gegnum vörn andstæðinganna og hann rifinn niður einn á móti markverði. Dómarinn dæmir vítaspyrnu en gefur einungis gult spjald. Allt í lagi með það þó að samkvæmt reglum hefði hann átt að gefa rautt spjald. Stuttu síðar fær títtnefndur Spánverji í okkar liði, boltann og missir hann. Eins og hver og einn leikmaður er hann svekktur út í sjálfan sig og blótar á eigin tungumáli, öskrar þá leikmaður hjá andstæðingum okkar að dómaranum og segir, ,,heyrðiru þetta ekki, hann kallaði mömmu mína hóru”. Dómarinn stoppaði leikinn og rak hann útaf. Við mótmæltum af krafti og þegar við spurðum hann útí atvikið svaraði hann : ,, Ég líð ekki slíkan talsmáta”. En hvað gerði hann rangt, er rangt að blóta útí sjálfan sig. Blótsyrðið sem hann rak útúr sér þegar hann missti boltann er sambærilegt og helvítis, eða djöfulsins á íslensku og dómarinn gaf þá skýringu að hann hafi blótað á spænsku og þess vegna fékk hann rautt spjald. Eru þetta ekki fordómar??? Leikmaðurinn var gjörsamlega eyðilagður við þetta að fá rautt spjald svona snemma fyrir það eitt að vera svekktur út í sjálfan sig. Þetta gerðist á 10.mínútu leiksins og er atvik sem getur gjösamlega eyðilagt leik heils liðs.

Leikurinn var hins vegar engan vegin búinn enda áttaði dómarinn sig á því hversu hrikaleg mistök hann hafi gert. Hvaða línu ætlaði hann að halda núna. Allt í einu fór dómgæslan að halla hrikalega á lið andstæðinganna og uppúr þurru dæmdi hann vítaspyrnu okkur í hag fyrir engar sakir. Stuttu seinna sleppti hann að dæma vítaspyrnu á okkar lið þar sem augljóslega var brotið af sóknarmanni þeirra inní vítateig. Þetta gerðist ekki einu sinni í leiknum heldur tvisvar. Leikurinn var kominn útí þvílíka vitleysu að það mátti gjörsamlega gera allt eftir þetta. Leikmenn beggja liða voru svo pirruð að tæklingar sem flugu báðum megin voru margar hverjar á við líkamsárásir og í flestum tilfellum þeirra var í raun og veru dæmd aukaspyrna en ekki alltaf gult spjald þó að hið rauða væri í raun og veru réttara. Dómarinn varð fyrir miklu aðkasti bæði frá leikmönnum beggja liða sem og áhorfendur sem skildu ekki upp né niður í dómgæslu hans allan leikinn. Þá setur maður spurningamerki við hvaðan fékk maðurinn dómararéttindi. Manni varð hugsað til liðs Afríku sem spilar í 3.deild. Oft hafði ég heyrt sögur af því hversu mikið af rauðum spjöldum þeir hafa fengið í gegnum tíðina, ég taldi það fyrst að það væru vegna hversu grófir þeir væru en eftir að hafa spilað gegn liðinu og séð þá spila nokkrum sinnum hef ég komist algjörlega að því að þetta er kannski ekki öll sagan. Gæti ekki hugsanlega verið að dómararnir hafi gefið leikmönnum Afríku óréttlátt spjöld fyrir litlar sakir eins og að tala sitt eigið tungumál. Í þessu tilfelli þar sem viðkomandi leikmaður fékk rauða spjaldið sá dómarinn svo eftir sér eftir leikinn og ákvað að draga spjaldið til baka svo leikmaðurinn mundi ekki fá leikbann (í þessu tilfelli 2ja leikja vegna 2.rauðs spjalds).

Það er ekkert einsdæmi um svona slaka dómgæslu en hvað eftir annað verða lið oftar en ekki í neðri deildum fyrir svo slakri dómgæslu að það kosti liðin stig í deildinni, hvað þá möguleika á sæti í öðrum deildum. Ég hef fylgst mikið með öllum deildum í sumar og hefur dómgæslan í úrvalsdeild karla batnað til muna og hefur verið gjörsamlega frábær. Það hlýtur að vera ákveðið merki um meiri kröfur til dómara. Ætli frammistaðan sé tengd launamálum dómaranna í efstu deild sem fengu “launahækkun” fyrir þetta tímabil. Ég held að það sé samasem merki þarna á milli. KSÍ gerir ekki nægilega miklar kröfur til þessa vanmetna starfs sem dómgæsla er.

Að dæma fótboltaleik snýst svipað mikið uppá hæfileika og það að spila knattspyrnu. Menn hafa mis mikla hæfileika, það er bara staðreynd. Ég held til að mynda að ég sjálfur hafi mikið meiri hæfileika í að dæma knattspyrnu en að spila hana sjálfur. En afhverju ætti ég að dæma leiki þegar ekkert er að fá útúr því. Ég mundi til að mynda ekki nenna að dæma leiki í annari og þriðju deild í tvö þrjú ár áður en mér gæfist kostur á því að vinna mig upp. KSÍ ætti að einbeita sér mikið mun betur af því að finna hæfileikaríka dómara í stað þess að láta einhverja og einhverja dæma leiki. Afhvejru ekki að reyna finna þessa hæfileikarríku og henda þeim í djúpu laugina. Það er eins og menn þurfi að vera búnir að dæma í 3-4 ár í 3.deild til að komast upp um ákveðinn flokk til að fá leyfi til að dæma í næsta flokk fyrir ofan. Það er augljóst mál að það eru dómarar sem eru það góðir að þeir gætu dæmt í efri deildum (úrvals og 1.deild) en því miður þurfa þeir að vinna sig upp. Þetta er eitthvað sem krefst tíma og það er ekki eitthvað sem allir nenna að standa í. KSÍ gæti t.d. tekið efnilegan dómara, látið hann dæma leik í 1.deild eða 2.deild, verið með eftirlitsmann á leiknum sem tæki skýrslu af frammistöðu hans, auk þess að fá álitsgjafa frá félögunum sjálfum sem léku leikinn. Þannig væri hægt að stuðla að því að finna betri dómara til að dæma leiki í stað þess að hafa óhæfa menn sem virðast ekki kunna allar reglur og missa tökin á leikjunum.

Þetta er kannski mitt álit að KSÍ þurfi að einbeita sér betur að dómaramálum og láta meiri pening í þetta vanmetna starf dómaranna. Ef þessu yrði fylgt eftir þá held ég að dómgæslan mundi batna mikið, en þá þyrfti KSÍ auðvita að taka frumkvæði að þessu verkefni og fylgjast vel með. Einnig væri hægt að fá félögin með í þetta verkefni og sent ákveðna menn sem vert væri að fylgjast með. Þessi grein er skrifuð til að vekja umræðu um fordóma í knattspyrnunni á Íslandi sem og stöðu dómara og dómgæslu á Íslandi. Alltaf verða til vafaatriði og dómarar gera mistök eins og aðrir og það er eitt af því sem gerir fótboltann svona skemmtilegan en ýmislegt er hægt að gera til að gera hana enn skemmtilegri og það er t.d. að losna við fordóma útúr fótboltanum og auka gæði dómara.

Virðingafyllst. Magnús Valur Böðvarsson.

~ af Magnús Böðvarsson á 31 júlí, 2007.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

 
%d bloggurum líkar þetta: